Stafrænt sjálfstæði, peningar og opinn hugbúnaður á Íslandi og víðar

Stafrænt sjálfstæði á Íslandi stendur illa. Íslensk stjórnvöld og fyrirtæki hlusta á fagurgala fyrirtækja eins og Advania, Origo og Opinna Kerfa sem lofa skýið þar sem hunang drýpur af hverju strái í boði Microsoft, Google og/eða Amazon.

Á sama tíma kynnir Microsoft til sögunnar stærsta e-waste átak sögunnar þar sem þeir ætla einir og óstuddir að koma öllum tölvum eldri en 2-4 ára á haugana ( sjá https://endof10.org )

Í ljósi pólitísks ástands vestra hefur bæjar- og ríkisstjórnum víða um heim orðið ljóst að ekki er allt með felldu í gagnaöryggi, og þótt allt virðist ljúft á yfirborðinu og menn lofa því fögrum tónum að „ekkert slæmt muni koma fyrir, gögnin þín eru örugg“ – þá verður alltaf spurning – hversu lengi?

Þjóðverjar eru búnir að hafa áhyggjur af þessum málum lengi. 2004 fór München inn í ferli þar sem á 15000 vinnustöðvum var skipt út Windows NT 4 yfir í LiMux (Linux+München) – dreifingu sem var sérstaklega sett saman fyrir München – og OpenOffice.org (síðar LibreOffice) með viðbótum sem gerðu OOo sérlega gott fyrir borgina. Þetta átak stóð til 2017 en þá tók ný borgarstjórn við og pólitísk ákvörðun tekin um að snúa aftur í Microsoft umhverfið (hluti af þeirri ákvörðun er að Microsoft færði höfuðstöðvar sínar til München). Engu að síður hefur verið tekin ákvörðun um að halda áframhaldandi ástfóstri við opinn hugbúnað og eitt af því er „Public money, public code“ ( sjá samkomulagið í heild hér: https://github.com/missgreenwood/foss-concept )

Við íbúar Reykjavíkur og landsmenn allir í reynd ættu að berjast fyrir því að Reykjavík hið minnsta og helst landið allt standi fyrir stafrænu sjálfstæði. Við eigum líka að berjast fyrir því að vel sé farið með peningana OKKAR. Fólk má ekki gleyma því að peningarnir sem þingmenn og ráðherrar leika sér með (og fara almennt frekar illa með) eru þegar upp er staðið OKKAR peningar. Það er því OKKUR í hag að skynsamlega sé með þá farið.

Hvað þýðir stafrænt sjálfstæði?

Stafrænt sjálfstæði er þegar ríki verður ekki fyrir takmörkun aðgengis að eigin gögnum ef samskiptaleiðir við umheiminn rofna – og eru ekki undir hælnum á erlendum fyrirtækjum eða ríkisstjórnum með aðgengi eða eignarrétt að gögnunum.

Hvernig stendur þetta stafræna sjálfstæði á Íslandi?

Íslenska ríkið hefur kosið að fara með gríðarlegt magn gagna í skýið. Samningar við Microsoft gera það að verkum að ef til sambandsrofs við umheiminn kæmi væri íslenska ríkið lamað. Stafrænt Ísland hefur alla sína auðkenningarþjónustu í gegnum AWS (Amazon) og yrðu því öll opinber kerfi á Íslandi meira eða minna lömuð ef til sambandsrofs við AWS kæmi.

Ef til stríðs kæmi í Evrópu eða í BNA, þá yrði allur aðgangur að skýjaþjónustum takmarkaður við landið sem þjónustan er hýst í. Öll samskipti milli landa yrðu mjög afmörkuð. Ísland myndi standa án auðkenningar, án gagna ríkisins og án gagna íslenskra fyrirtækja sem hafa kosið að færa sig yfir í skýið.

Annar hluti stafræns sjálfstæðis er hvernig ríki og sveitarfélög höndla hugbúnaðar- og gagnagerð. Í dag borga ríki og sveitarfélög innlendum og erlendum hugbúnaðarhúsum fyrir „greiða“. Það er – stofnun X gerir samning við hugbúnaðarhús Y um gerð á hugbúnaðarkerfi fyrir sig. Hugbúnaðurinn er svo skrifaður út frá útboðslýsingu með lægsta mögulega samnefnara í huga – þ.e. ef þú baðst ekki sérstaklega um „það“, þá er „það“ ekki hluti af pakkanum – þó „það“ sé almennt hluti af því sem kallast „best practices“ í geiranum. Einnig er hugbúnaðurinn skrifaður í lokuðu vistkerfi – oftast hýst hjá hugbúnaðarhúsinu eða í lokuðu rými á GitHub – og má stofnunin þakka fyrir ef hún fær aðgang að kóða kerfisins – hvað þá að fá kóðann í heild. Oft endar verkefnið þannig að hugbúnaðarhúsið hýsir verkefnið (eða finnur því hýsingu) og heldur svo utan um kóðann sem sinn eigin.

Lausn á þessu er „Public money, public code“. Sjá umfjöllun hér: https://publiccode.eu/en

Öll hugbúnaðarverkefni sem gerð eru fyrir almannafé séu opinn hugbúnaður í opnu vistkerfi. Samnýting á hugbúnaði milli stofnana verður einfaldari og opnari og almenningur sem greiddi fyrir kerfin getur nýtt sér þau í heild eða hluta eins og þeim þóknast. Eðlilegt væri að slíkur hugbúnaður fylgdi opnum leyfum eins og MIT leyfinu. Einnig myndi opið vistkerfi opna fyrir almenna rýni á hugbúnaðinum – og þar með ýta á þá aðila sem skrifa hugbúnaðinn að vanda vinnubrögð sín betur.

Að sama skapi er í gagnageiranum „Public money, public data“. Gögn sem búin eru til að ríki og sveitarfélögum eiga að vera opin að því marki sem hægt er frá persónuverndarsjónarmiði. Þannig hafa til dæmis Landmælingar Íslands opnað mikið – ef ekki allt – af sínum gögnum. Aðrar stofnanir mættu fylgja – Landsvirkjun með orkuframleiðslugögn, Veðurstofan með veður og vatnafarsgögn, Ísor með jarðfræðileg gögn, Orkustofnun með öll sín samþættingargögn, Samgöngustofa með ökutækja-, flug- og skipaskrá og svo mætti lengi telja.

Hvernig getur Ísland leyst þetta?

Ísland þarf og VERÐUR að koma upp eigin gagnaverum sem sinna grunnþjónustu fyrir íslenska ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki. Grunnþjónstu sem snýr að gagnavistun og auðkenningu. Ekkert annað. Slík grunnþjónusta þarf og VERÐUR að vera á vegum sameignar okkar allra – ríkisins. Slík þjónusta á EKKERT erindi út í einkageirann, því eins og hefur sýnt sig – þá hefur innviðaþjónusta tilhneigingu til að falla í hendur erlendra aðila, sbr. Mílu sem aldrei hefði átt að vera neitt annað en ríkiseign.

Ísland þarf og verður að fara hugsa í opnum lausnum í eigu landsmanna frekar en lokuðum lausnum í eigu fárra erlendra aðila sem lúta stjórn erlendra ríkisstjórna sem deila má um á hverri stundu hvort séu vinveittar okkur eða ekki.

Hvað með fréttir af Windows 10 og úreldingu búnaðar?

Microsoft hefur ákveðið að hætta að styðja Windows 10 frá og með 14. október 2025. Það er þeim að sjálfsögðu í sjálfsvald sett – þeir eru fyrirtæki á almennum hlutabréfamarkaði og ber ákveðin hagnaðarskylda til hluthafa sinna. Hluti af því er að skera af „gamla fitu“ og einbeita sér að þeim vörum sem þeir hafa í dag.

En í stað þess að búa til leið handa viðskiptavinum að uppfæra upp í „diet“-útgáfu af Windows 11 sem væri AI-laus og sniðin að þeim búnaði sem Windows 10 er að yfirgefa, þá kusu þeir í staðinn að dæma nánast allar Windows 10 vélar á ruslahaugana.

Ríki og sveitarfélög eru með mikið af búnaði sem enn er mjög góður – en keyrir ekki Windows 11 – og getur það ekki (án þess að fara á skjön við leyfisskilmála). Fyrirtæki eru með enn meira af slíkum búnaði. Allur þessi búnaður endar – ef ekki er á aðra möguleika bent – á haugunum. Það er gríðarlegt fjármagn og gríðarlegt magn búnaðar sem hefur enga framtíð – ef enginn bendir á aðrar lausnir.

Hvaða lausnir eru í boði fyrir þá sem eru með gamlan búnað?

Ein lausn til að nýta búnaðinn áfram um ókomin ár er að skipta úr Windows í Linux. Í dag eru til mjög margar notendavænar dreifingar af Linux sem virka vel á eldri búnaði. Dæmi um slíkar dreifingar eru;

En nú er krafa á að geta keyrt einhvern tiltekinn Windows hugbúnað á vinnustöðvunum – og hann er ekki til fyrir Linux! Hvað þá?

Ef það er krafa um tiltekinn Windows hugbúnað, þá er oft hægt að keyra téðan hugbúnað undir hjálparkerfi sem heitir Wine. Það gerir Windows forritum kleift að keyra á Linux og þau halda að þau séu að keyra á Windows tölvu. Sé um stærri fyrirtæki eða stofnanir að ræða, þá er oftast ódýrara að kaupa einn netþjón sem keyrir Windows Terminal Server og setja upp Remote Desktop Client (rdesktop, remmina) á vinnustöðvum. Þannig er hægt að halda lengur í fjárfestinguna sem voru vinnustöðvarnar – og samt veita fullan aðgang að Windows stýrikerfinu og hugbúnaði í gegnum remote desktop.

Lokaorð

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra – það er mikið í farvatninu þessa dagana og mikil umræða um opinn hubúnað, notkun á almannafé og höggið sem heimurinn er að verða fyrir vegna Windows 10. Ef þú hefur lesið alla leið hingað vil ég þakka þér áhugann og þolinmæðina og vona að þú hafir fengið eitthvað til að hugsa um.